02. júlí. 2009 02:02
Það er létt yfir mannskapnum í hvalkjötsvinnslu Hvals hf. í húsakynnum HB-Granda á Akranesi, sem áður var frystihús Heimaskaga hf. Þar vinna um 35 manns á átta tíma vöktum allan sólarhringinn og ekki annað að heyra á starfsfólkinu en það kunni vel við vinnuna. Kjötið er skorið til og fryst í pönnum áður en því er pakkað inn í plast og sett í pappakassa tilbúna á markað í Japan. Afurðirnar eru síðan fluttar frá Akranesi í frystigeymslu í Hafnarfirði og er einn flutningabíll frá ÞÞÞ í stöðugum flutningum milli Akraness, Hafnarfjarðar og hvalstöðvarinnar í Hvalfirði. 18 langreyðar eru nú komnar á land en hvalbátarnir tveir hafa ekkert getað aðhafst síðasta sólarhringinn vegna þoku á miðunum.