06. júlí. 2009 03:18
 |
Umferð um þröngan Vesturlandsveg |
“Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi skorar á ríkisstjórn Íslands, samgönguráðherra og þingmenn Norðvesturkjördæmis að fylgja eftir án tafar tillögum og hugmyndum um tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og tvöföldun Hvalfjarðarganga,” segir í upphafi ályktunar SSV. Þá segir að liðlega tvær milljónir ökutækja fara um Kjalarnes og Hvalfjarðargöng árlega og einsýnt að mæta þarf eðlilegum kröfum um umferðaröryggi með nauðsynlegum framkvæmdum. Vísað er til samkomulags Spalar ehf. og Vegagerðarinnar frá 9. janúar 2007 þar sem Vegagerðinni er tryggð fjármögnun til nauðsynlegra undirbúningsframkvæmda vegna tvöföldunar vegar á Kjalarnesi, en Spölur ehf. hefur þegar lokið öllum nauðsynlegum undirbúningsrannsóknum vegna tvöföldunar Hvalfjarðarganga.
“Jafnframt skorar stjórn Samtaka sveitarfélga á Vesturlandi á stjórnvöld að gera nú þegar áætlun um lagningu bundins slitlags á núverandi malarvegi Vesturlands. Benda má á að breytt atvinnuþátttaka, akstur skólabarna og aðrar breytingar í þjóðfélaginu gera þessar umbætur á vegakerfinu nauðsynlegar. Tvöföldun vegar á Kjalarnesi, tvöföldun Hvalfjarðarganga og lagning bundins slitlags á malarvegi á Vesturlandi eru í senn mjög mikilvægt öryggismál en einnig skynsamleg og arðsöm framkvæmd ekki síst nú þegar brýn nauðsyn er á atvinnuskapandi framkvæmdum,” segir að lokum í ályktun stjórnar SSV.