10. júlí. 2009 09:39
 |
Hróðugur fiskimaður með feitan og fallegan makríl. Ljósm. sig. |
Undanfarin tvö til þrjú ár hefur Breiðafjörðurinn verið fullur af síld jafnvel í slíku magni að elstu menn hafa ekki upplifað annað eins. Nú rekur unga sem aldna í rogastans yfir “nýrri” fisktegund en undanfarna daga hefur höfnin og víkin fyrir utan Ólafsvík verið full af stórum og feitum makríl. Hafa menn verið að fá allt að 100 kílóum á stöng á dag. Þetta gerist á sama tíma og sjávarútvegsráðherra hefur lagt bann við makrílveiðum. Íbúar í Ólafsvík hafa ekki látið þetta framhjá sér fara og flykkst niður á höfn til að veiða þennan óvænta feng sem tekur hressilega í og lætur finna fyrir sér þegar honum er landað. Aflinn er síðan ýmist boðinn til sölu, frystur eða skellt á grillið. Þá er makríll afar góð beita t.d. til silungsveiða sökum þess hve feitur fiskurinn er.