13. júlí. 2009 03:55
 |
Vilhjálmur Birgisson. |
„Það er í raun og veru grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30 þúsundum upp í tæplega 60 þúsund á mánuði,“ segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, en eftir hádegi á mánudag var skrifað undir framlengingu og breytingar á kjarasamningi félagsins við launanefnd sveitarfélaga. Vilhjálmur var þarna að vitna í aðhaldsaðgerðir sem samþykkar voru á fundi bæjarráðs Akraness á dögunum, sem m.a. gera ráð fyrir styttingu opnunartíma íþróttamannvirkja og þar með styttri vinnutíma starfsmanna. Stjórn VLFA ákvað að skrifa undir kjarasamninginn á þeirri forsendu að allflest stéttarfélög hafa þegar gengið frá framlengingu kjarasamninga.
„Verkalýðsfélag Akraness mun hins vegar reyna eftir fremsta megni að fá þeim niðurskurði breytt með einum eða öðrum hætti, sem boðaður hefur verið á launakjörum starfsmanna Akraneskaupstaðar sem tilheyra VLFA,“ segir á heimasíðu félagsins. Í þeirri viðleitni hefur stjórn VLFA sent bæjarráði og bæjarstjórn bréf. Þar er þess farið á leit að skipaður verði vinnuhópur sem yfirfari þær sparnaðaraðgerðir sem boðaðar hafa verið.