14. júlí. 2009 11:54
Meðaltalsumferðin í Hvalfjarðargöngum í júlímánuði hefur verið yfir 8.100 bílar á sólarhring að jafnaði, sem er umtalsvert meira en á sama tíma í fyrra. Mesta helgarumferðin í göngunum hingað til var 19.- 21. júní þegar m.a. var knattspyrnumót yngstu flokkanna á Akranesi. Þá fóru alls 29.000 bílar um göngin frá föstudegi til sunnudags. Á heimasíðu Spalar segir að umferðartölur það sem af er sumri benda eindregið til þess að landsmenn ferðist nú meira um eigið land en áður. Fyrstu helgina í júlí var helgarumferðin 28.200 bílar og nú um nýliðna Landsmótshelgi UMFÍ fóru alls um 28.000 bílar undir Hvalfjörð, þar af 11.000 á föstudeginum. Allar helgar sumarsins eru annatími í umferðinni og framundan í það minnsta tvær stórar ferðahelgar, sjálf verslunarmannahelgin og svo Fiskidagurinn mikli á Dalvík viku síðar.