15. júlí. 2009 02:53
Tökur á kvikmyndinni “Laxdæla Lárusar Skjaldarsonar” standa nú yfir í Dalabyggð. Þær hófust fimmtudaginn 9. júlí í Búðardal. Með aðalhlutverk í kvikmyndinni fara Stefán Karl Stefánsson, Eggert Þorleifsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir. Leikstjóri myndarinnar er Dalamaðurinn Ólafur Jóhannesson. Á vef Dalabyggðar hefur nú verið auglýst eftir statistum í hópsenur sem teknar verða á næstunni. Þannig vantar fólk til að vera við jarðarför 25. júlí og nokkra menn til að tefla skák 27. júlí. Framboðsfundir verða teknir upp 28. júlí og 5. ágúst og fólk vantar í þær tökur einnig. Þá þarf fjölmenni á skemmtun fyrir börn og fullorðna þann 30. júlí og aftur 7. ágúst. Einnig er á vefsíðu Dalabyggðar auglýst eftir orfum og ljáum til að nota við tökurnar. Áhugasamir geta haft samband við Katrínu Ólafsdóttur í síma 847-0847.