16. júlí. 2009 03:06
 |
Ullarvettlingar í Ullarselinu |
Næstkomandi laugardag, þann 18. júlí, verður landskeppnin Ull í fat 2009 haldin á Hvanneyri samhliða Ferguson-deginum. Það er Ullarselið sem stendur fyrir keppninni að þessu sinni sem fara mun fram í kálfafjósi Halldórsfjóss - hinu væntanlega húsnæði Landbúnaðarsafns Íslands. Þarna mun verða háð alvörukeppni í því að vinna ull í fat - frá hráefni til fullunninnar vöru. Keppnin hefst kl. 13.30 og hún gæti staðið fram undir kl. 16. Þarna munu takast á í drengilegri keppni tóvinnukonur sem heldur betur kunna til verka. Einhver tenging mun verða við Ferguson í keppnisgreinum ullarvinnslu tóvinnukvenna. Þannig eru getgátur um það á heimasíðu Landbúnaðarsafnsins að ullarvörur sem unnar verða í keppninni gætu haft skírskotun í afmælisbarn dagins, t.d. vatnskassatrefill, blöndungss(m)okkur, húddsjal, ullarbreiðsla, ljósahetta, stýrishlíf, flöskuvermir, rasspúði, geymisvermir eða tvíþumla ökumanns vettlingar.