16. júlí. 2009 02:01
Nú rétt í þessu var samþykkt á Alþingi tillaga um að Íslendingar hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið. Atkvæðagreiðslan fór þannig að 33 þingmenn greiddu tillögunni atkvæði, 28 voru á móti en 2 sátu hjá. Þar með er ríkisstjórn Íslands falið að hefja viðræður við ESB um aðild. Hvaða skoðun sem menn hafa á þessari ákvörðun er óhætt að segja að nú sé lokið áralangri umræðu sem hvorki hefur leitt þjóðina lönd né strönd, þar til nú.
"Þetta var söguleg stund og ánægjulegasta atkvæðagreiðsla sem ég hef tekið þátt í," sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra nú rétt í þessu. "Þetta var erfiður dagur fyrir mig og Vinstri græna. Flestir flokkar voru klofnir í afstöðu. Nú fæst í það minnsta niðurstaða í hvort Íslendingar fái þær undanþágur sem þeir þurfa í aðildarviðræðum," sagði Steingrímur J Sigfússon formaður VG og fjármálaráðherra í samtali við RUV. Fulltrúar minnihlutaflokkanna voru afar vonsviknir yfir niðurstöðunni þegar rætt var við þá í þingsal nú rétt í þessu.