21. júlí. 2009 01:29
Það vakti athygli þegar Fylkir úr Árbænum sótti Valsmenn heim á Vodafonevöllinn á Hlíðarenda í Pepsí-deildinni í gærkveldi, að KSÍ setti dómara á leikinn sem er úr sömu fjölskyldu og Ólafur Þórðarson þjálfari Fylkis, það er ÞÞÞ fjölskyldunni af Skaganum. Þetta var Valgeir Valgeirsson sem dæmt hefur við góðan orðstír í efstu deild í sumar, en Valgeir er systursonur Óla Þórðar.
Fylkir vann leikinn 1:0 með marki sem skorað var út vítaspyrnu. Óli Þórðar fagnaði eins og heimsmeistari að vonum, enda Fylkismönnum gengið með afbrigðum vel í deildinni í sumar undir hans stjórn. Óli var þó ekki fullkomlega ánægður með framgöngu frænda síns í leiknum og sagðist í viðtali eftir leikinn hafa viljað fá tvö víti til viðbótar.
Sparkspekingum fannst þó frammistaða Valgeirs góð í leiknum. Hann var samkvæmur sjálfum sér í dómum, lagði snemma í leiknum línu sem hann fór eftir. Til að mynda gaf hann framherjum í báðum liðum gul spjöld fyrir leikaraskap. Menn voru einnig sammála um að ósekju hefði hann mátt dæma Fylki aðra vítaspyrnu til viðbótar, en ekki tvær eins og Óla frænda fannst sanngjarnt.
Þeir frændur tóku í leikslok eina af hinum frægu “ÞÞ rispum,” þar sem rifist var í hástert, en allt þó í gamni gert.