21. júlí. 2009 03:03
 |
Frá Langasandi á Akranesi |
Það sem af er júlímánuði hefur verið óvenjulega þurrt og úrkomulítið á Vesturlandi miðað við tölur hinnar gömlu veðurathugunarstöðvar í Stykkishólmi. Aðeins tvisvar áður frá upphafi veðurathugana í Hólminum hefur mælst jafnmikill hiti fyrstu 19 daga júlímánaðar, en það var árin 1880 og 1908, en meðalhitinn það sem af er júlí er 12,5 gráður. Úrkoman í júlímánuði í Stykkishólmi er aðeins 0,7 millimetri, í Reykjavík 5,4 mm, á Akureyri 3,9 mm og í Bolungarvík 3,3 mm. Trausti Jónsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands sagði í morgun að fara þyrfti talsvert aftur til að finna svo lága úrkomutölu í Hólminum fyrir nákvæmlega þetta þriggja vikna tímabil í júlí, en hins vegar sé það ekki afbrigðilegt að svona lítil úrkoma sé á tímabilum fyrri hluta sumars. Trausti segir að bæði meðalhiti og úrkomutölur kunni að breytast nú í vikunni þegar spáð er köldu norðan veðri í kjölfar lægðar sem tekur með sér kalt loft og raka.
„Annars virðist þetta sumar líkjast mjög þeim tveim síðustu, þegar fyrri hlutinn var þurr og úrkomulítill en síðan fór að rigna “eldi og brennisteini.” Þetta er sama munstrið. Í hitteðfyrra byrjaði að rigna um 20. ágúst og hann hellirigndi þá fram yfir áramótin. Í fyrra byrjaði að rigna um svipað leiti og þá var september óvenju úrkomumikill,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur.