22. júlí. 2009 02:03
Heildarafli íslenskra fiskiskipa í júnímánuði var 55% meiri en í sama mánuði í fyrra. Það sem af er árinu hefur aflinn aukist um 10,2% miðað við sama tímabil 2008, sé hann metinn á föstu verði. Aflinn í júní síðastliðnum var tæp 128 þúsund tonn samanborið við 61 þúsund tonn í sama mánuði árið áður. Botnfisksafli jókst um rúm 12.000 tonn frá júní í fyrra og nam rúmum 38 þúsund tonnum. Afli uppsjávartegunda nam tæpum 84 þúsund tonnum sem er um 54 þúsund tonnum meiri afli en í júní 2008. Flatfisksaflinn var rúm 3.700 tonn í júní og jókst um tæp 1.400 tonn frá fyrra ári. Þá nam skel- og krabbadýraafli 1.314 tonnum samanborið við 2.189 tonna afla í júní í fyrra.