22. júlí. 2009 04:13
Mikið er að gerast hjá Grundfirðingum þessa dagana, en nú er að hefjast bæjarhátíðin „Á góðri stund.“ Formlega hefst hún á morgun, fimmtudaginn 23. júlí og stendur fram á sunnudag. Reyndar má segja að Grundfirðingar hafi þjófstartað á stemningunni þar sem Útvarp Grundafjarðar hefur sent út frá því á sunnudag. Dagskrá hátíðarinnar er mjög fjölbreytt, auk tónleika og dansleika þar sem þekktir listamann koma fram, eru listsýningar og ýmislegt annað menningarlegt. Til að mynda verða tvær málverkasýningar í bænum þessa daga, bæði á Kaffi 59 og Hótel Framnesi.
Bæjarhátíðin hefst með hverfaskreytingu um miðjan dag á morgun og um kvöldið verða tónleikar á bryggjusvæðinu í húsi Djúpakletts þar sem Raggi Bjarna og Bjarni Ara syngja við undirleik stórhljómsveitar. Hátíðardagana verða m.a. sögustundir í Sögumiðstöðinni og göngu- og fjallaferðir á dagskrá alla dagana.
Hverfakeppni í skák verður á föstudeginum og grillveisla í boði Samkaups Úrvals á hátíðarsvæði. Þá verða afhent verðlaun Hollvinafélags Grundarfjarðar, veitt þeim einstaklingi sem hefur látið verulega muna um sig í þágu lista, menningar eða annarra framfara í byggðarlaginu. Þá verður einnig kubbamót á svæðinu og er það styrkt af Ragnari og Ásgeir eins og skákmótið. Fleiri leikir verða á hátíðarsvæðinu og klukkan sjö um kvöldið er komið að Rokk - Festivali á bryggjunni í boði Menningarráðs Vesturlands. Þar koma fram Flawless error, Apart from lies, Nögl, Endless dark og fleiri hljómsveitir. Síðar um kvöldið er svo fimleikasýning á íþróttavellinum þar sem margverðlaunaður sýningarhópur frá Gerplu sýnir. Áður en komið er að stórdansleik með Pöpum í Samkomuhúsinu stýrir Róbert Marshall brekkusöng á íþróttavellinum.
Laugardagurinn verður líka viðburðaríkur. Hann hefst á víðavangshlaupi og dorgveiðikeppni. Eftir hádegið er hátíðardagskrá þar sem ýmislegt verður til skemmtunar og kynnar eru þeir góðkunnu Gunni og Felix. Um miðjan dag fer fram kraftakeppni við Samkomuhúsið þar sem tröllin takast á um titilinn Grundarfjarðartröllið 2009. Um kvöldið verða skrúðgöngur úr hverfunum og hátíð á bryggjunni. Bryggjuball verður á hátíðarsvæði þar sem Draugabanarnir halda uppi stuðinu og Dansleikir bæði á Kaffi 59 og Krákunni.
Dagskrá „Á góðri stund“ endar síðan á sunnudeginum með Opna Soffamótinu í golfi á Bárarvelli, en ýmislegt annað verður að gerast. Nesbyggð sýnir nýjar fullbúnar íbúðir við Ölkelduveg alla helgina. Meðal þess sem opið er í Grundarfirði alla helgina er handverksmarkaðurinn við bryggjuna og Gallerí Kind.