27. júlí. 2009 10:05
Dagana 28. til 30. ágúst næstkomandi verður landbúnaðarsýningin Glæta 2009 haldin í og við nýju reiðhöllina í Borgarnesi. Það er rekstrarfélag hússins sem gengst fyrir sýningunni eins og fram hefur komið í Skessuhorni. Starfsmenn sýningarinnar vinna nú hörðum höndum að undirbúningi. Sigríður Sjöfn Helgadóttir er sýningarstjóri en um markaðsmál sér Birna Sigurðardóttir sem segja má að sé gamall jaxl í sýningarbransanum. Hún hefur meðal annars starfað við landbúnaðarsýningarnar á Sauðárkróki, fjórðungsmót hestamanna, landsmót og Íslandsmót síðan árið 1991. "Landbúnaðarsýningin Glæta er að fá góðar undirtektir og verður sýningin eina sinnar tegundar á landinu í haust. Aðstandendur sýningarinnar hafa mikinn metnað fyrir hönd íslensks landbúnaðar og hafa þeir í hyggju að gefa gestum góða hugmynd um mikilvægi landbúnaðar fyrir íslenska þjóð. Allar greinar landbúnaðarins verða kynntar. Tækni í landbúnaði hefur aukist gríðarlega á liðnum árum og verður lögð áhersla á að kynna þessa byltingu á einfaldan en fróðlegan hátt,” segir Birna.
Hún segir að það fari vel á því að halda þessa sýningu í Borgarfirði, en í héraðinu eru mörg af öflugustu búum landsins. Þá henti húsnæði reiðhallarinnar afar vel fyrir sýningu af þessu tagi. Húsið er 2000 fermetrar og útisvæðið er gríðarstórt. “Við erum núna um það bil hálfnuð að selja sýningarbásana. Nú þegar hafa til dæmis þrír vélasalar boðað komu sína, en auk þess get ég nefnt fyrirtæki á borð við Lífland, Íslensku gámaþjónustuna, Búnaðarsamtök Vesturlands, bændur sem starfa innan samtakanna Beint frá býli, MS, Kaupþing, Kaupfélag Borgfirðinga, Flugger málningu, Áburðarverksmiðjuna og ýmsa fleiri. Þetta lofar því allt góðu og ég vonast til að selja upp allt það sýningarsvæði sem til ráðstöfunar er,” segir Birna sem hvetur að lokum alla sem hagsmuna hafa að gæta til að taka þátt í sýningunni.