14. september. 2009 09:04
 |
Gísli í starfsstöð RUV við Bröttugötu. |
Starfsstöð Ríkisútvarpsins í Borgarnesi mun um næstu mánaðamót verða færð um set í bænum í nýtt framtíðarhúsnæði Svæðisútvarps Vesturlands, að sögn Gísla Einarsson frétta- og dagskrárgerðarmanns. Útvarpið hefur undanfarin ár verið í gömlu húsi við Bröttugötu en flytur á jarðahæð Menntaskóla Borgarfjarðar við Borgarbraut. Í samtali við Skessuhorn sagði Gísli að nýja húnsæðið væri á allan hátt ákjósanlegra. „Það sem við erum að sækjast eftir er að verða sýnilegri og nýja staðsetningin þýðir að við verðum meira en áður innan um fólkið. Nú er væntanlega stutt í að Borgarfjörðurinn komi inn á svæði útvarps Vestfjarða og Vesturlands og mér sýnist að þetta sé hentugt framtíðarhúsnæði fyrir svæðisútvarpið,“ segir Gísli.
Ríkisútvarpið hefur tekið á leigu tvö herbergi á jarðhæðinni rétt við anddyri Menntaskólans.
Gísli segir að auk fyrrnefndra kosta sé auðvelt um vik er varðar viðbótar tölvutengingar á nýja staðnum. „Þetta er gott húsnæði og nú er ekki eins og áður gerðar kröfur um lofttæmt rými til upptöku. Svo hlökkum við til samvinnu við menntaskólann þegar þar að kemur,“ sagði Gísli Einarsson.