13. september. 2009 05:29
“Þetta er búið að vera djöfull þungt og erfitt að reka féð. Það hefur verið talsverð þoka á sumum leitarmönnum og þá hefur rigning og rok gert okkur lífið leitt. Það er svosem hægt að klæða af sér rigninguna en það er djöfullegt að leita þegar þoka birgir sýn,” sagði Kristján Axelsson, fjallkóngur Tungnamanna og Þverhlíðinga í samtali við Skessuhorn nú síðdegis í dag. Hann var þá staddur á Hermundarstaðahálsi og var strekkingsvindur en þurrt á síðasta spölnum áður en féð er rekið í Þverárrétt. Kristján segir að smalamennskan hafi þrátt fyrir veðrið gengið áfallalaust fyrir sig. Vænleika dilka segir hann góðan. Svipaða sögu höfðu gangnamenn úr uppsveitum Borgarfjarðar að segja en þeir leituðu Arnarvatnsheiði síðustu daga og ráku til Fljótstunguréttar í gær. Féð virtist vænt, en rigning og rok hafði gert smalamennskuna erfiða á heiðinni, sérstaklega á föstudaginn. Meðfylgjandi mynd er af fénu af Arnarvatnsheiði þar sem það rennur niður haustlitaprýtt Hallmundarhraunið og síðasta spölinn til réttar.