22. september. 2009 10:28
Vegagerðin gefur reglulega út fréttabréf sem nefnist Framkvæmdafréttir. Í 17. tölublaði þessa árs er yfirlit yfir útboðsverk sem eru í gangi eða fyrirhuguð. Það er skemmst að segja frá því að engin verk eru fyrirhuguð í útboð og engin verkefni eru á samningaborðinu, líkt og sjá má á þessari mynd sem tekin er úr fréttabréfinu. Þess má geta að á þenslutíma hefur þessi tafla verið meira en ein blaðsíða að stærð.
Framkvæmdafréttir eru þrátt fyrir ördeyðu í verkefnum 8 síður að stærð í A4 broti. Lesandi Skessuhorns sem leið átti á ritstjórn blaðsins og sá Framkvæmdafréttir velti því upp hvað til dæmis hefði mátt hefla marga kílómetra af malarvegum fyrir þá upphæð sem varið var til útgáfunnar.