23. september. 2009 02:03
Frystitogarar HB Granda eru nú á veiðum fyrir vestan landið og á Vestfjarðamiðum. Birkir Hrannar Hjálmarsson, rekstrarstjóri togara hjá fyrirtækinu segir að veiðarnar hafi gengið þokkalega utan hvað minna er um ýsu en á sama tíma í fyrra. “Togararnir eru þarna í blönduðum afla. Það er minna um ýsu en á sama tíma í fyrra og það bætir ekki úr skák að það er mikill þorskur á miðunum og það gerir okkur mun erfiðara um vik við að sækja í ýsuna og ufsann,” segir Birgir Hrannar á vef HB Granda. Þá segir hann að einnig hafi gengið vel hjá ísfisktogurum félagsins, veiðarnar séu í nokkuð föstum skorðum. “Þeir byrja í karfa og ufsa fyrir sunnan og fara svo vestur til að taka þorskskammtinn sinn sem er þetta frá 25 tonnum og upp í 40 tonn í túr. Að jafnaði hefur sá afli náðst á innan við sólarhring enda vefst það ekki fyrir mönnum að veiða þorsk. Mesti vandinn er að forðast hann þegar verið er að veiða aðrar fisktegundir.”
Úthafskarfaveiðar hafa gengið vel hjá togurum fyrirtækisins. “Væntingar voru ekki mjög miklar vegna þess að vertíðin í fyrra var ákaflega döpur, svo ekki sé meira sagt. Undanfarin ár hefur karfinn úti á Reykjaneshryggnum gefið sig til frá því í byrjun maí og yfirleitt hefur veiðin ekki staðið lengur en fram í fyrstu vikuna í júlí. Að þessu sinni voru veiðarnar stundaðar fram að mánaðamótum júlí og ágúst en þá luku skipin okkar við að veiða úthlutaðan kvóta. Við vorum með fjögur skip á þessum veiðum og heildaraflinn varð tæplega 6.800 tonn. Þetta er frábær búbót og vonandi benda aflabrögðin til þess að ástand stofnsins sé gott,“ segir Birkir Hrannar að lokum.