25. september. 2009 04:46

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er ósammála ákvörðun utanríkisráðuneytisins um að verða ekki við ósk Bændasamtaka Íslands um að spurningar og svör vegna aðildarumsóknar að ESB verði þýdd á íslenska tungu. Hann segir að ráðuneyti hans og stofnanir þess sé önnum kafið við að svara spurningum frá ESB. “Mér er sagt að milli 40- 50 manns hafi komið að þessari vinnu. Er af hálfu ráðuneytisins kappkostað að sú vinna sé vönduð sem kostur er,” segir Jón og bætir við: “Ég vil lýsa því yfir að ég er sammála Bændasamtökunum og öðrum þeim sem telja nauðsynlegt að bæði spurningar, svör og önnur þau málefnalegu gögn sem lúta að umsókninni um aðild að Evrópusambandinu verði birt samhliða á íslensku. Ég tók þetta mál upp í ríkisstjórn i morgun og taldi eðlilegt að þessi tilhögun gilti samræmt fyrir öll ráðuneyti. Málið verður að minni ósk rætt frekar á ríkisstjórnarfundi n.k. þriðjudag,” segir Jón. Samkvæmt þessu er Jón Bjarnason í grundvallaratriði ósammála túlkun utanríkisráðuneytisins sem sagði fyrr í vikunni að of dýrt væri að þýða spurningar og svör við ESB umsókn á íslenska tungu.