01. október. 2009 07:31
Bókasafn Akraness verður opnað í dag, fimmtudaginn 1. október klukkan 10 í nýjum húsakynnum að Dalbraut 1. Þar eru einnig til húsa Héraðsskjalasafn Akraness og Ljósmyndasafn Akraness. Akurnesingum og öðrum gestum er boðið að heimsækja safnið af þessu tilefni, skoða nýbygginguna og þiggja kaffiveitingar. Starfsfólk safnsins mun annast leiðsögn um safnið og kynna starfsemina. Síðdegis verður boðið upp á lifandi tónlist og upplestur í Bókassafninu. Klukkan 16 munu börn sem tóku þátt í Stóru upplestrarkeppninni koma í heimsókn og lesa upp. Klukkustund síðar mun Þórarinn Eldjárn rithöfundur lesa úr verkum sínum. Einnig leika nemendur úr Tónlistarskólanum á Akranesi nokkur lög.
Bókasafnið verður opið alla virka daga frá kl. 10 til 18 en almenn afgreiðsla bóka verður opin strax á fyrsta degi.
Í dag verður nýtt þjónustuver Akraneskaupstaðar að Stillholti 16-18 einnig opið öllum Akurnesingum og öðrum gestum, sérstaklega frá kl. 15 og 17. "Íbúar eru hvattir til að heimsækja þjónustuverið, kynnast þeirri starfsemi sem þar fer fram og þiggja kaffiveitingar," segir í tilkynningu frá Akraneskaupstað.