01. október. 2009 10:40
Forvarnardagurinn var degi seinna á ferðinni í grunnskólunum á Akranesi, en í skólum yfir landið, vegna starfsdags kennara í Grundaskóla og Brekkubæjarskóla í gær. Forvarnardagurinn er því haldinn í skólunum á Akranesi í dag, fimmtudag. Þegar blaðamaður Skessuhorns leit inn í Brekkubæjarskóla í morgun voru 9. bekkingar skólans staddir á sal. Þar voru þeir nýbúnir að horfa á fræðslumyndband um forvarnir þar sem ýmsir landsþekktir leiðtogar miðla af reynslu sinni. Fyrr um morguninn fengu níundu bekkingarnir í heimsókn Lúðvík Gunnarsson frá félagsmiðstöðinni Arnardal og Jón Þór Þórðarsson frá ÍA sem kynntu tómstunda- og æskulýðsstarf sem unglingum á Akranesi stendur til boða; auk fjölbreytts íþróttastarfs, skátastarfið, björgungarfélagið og ýmislegt fleira. Næst á dagskránni hjá níunda bekkingum á forvarnardegi var síðan ýmiss hópvinna. Þar átti m.a. að fjalla um gildi samverustunda með vinum og fjölskyldu, skaðsemi unglingadrykkju og neyslu vímuefna.