12. október. 2009 06:12
Prentstofunni Örkinni ehf. á Húsavík var lokað vegna fjárhagsörðugleika um síðustu helgi. Auk alhliða prentþjónustu var fyrirtækið útgefandi auglýsingablaðsins Skráarinnar, sem komið hefur út í 34 ár og héraðsfréttablaðsins Skarps. Þannig er útlit fyrir að hvorugt þessara blaða komi út í í vikunni og raunar ekki um ófyrirsjáanlega framtíð, að því er segir á vefsíðu Skarps. Vissulega er eftirsjá af hverju því héraðsfréttablaði sem verður kreppunni að bráð og því er Þingeyingum sendar hlýjar kveðjur norður fyrir heiðar frá Skessuhorni með von um að skarpur viðsnúningur verði í útgáfumálum þeirra. Þá segir á síðu Skarps að prentstofan Örkin sé enn eitt af fórnarlömbum kreppunnar í Þingeyjarsýslum, lán hafa hækkað upp úr öllu valdi, sömuleiðis aðföng í prentverkinu sem nánast öll eru innflutt og samhliða hefur verið samdráttur í verkefnastöðu, ástand sem fjöldi fyrirtækja í landinu glímir við um þessar mundir og sér ekki fyrir endann á því. “Og lítið bólar á bjargráðum ríkisstjórnarinnar í þágu fyrirtækja,” segir Jóhannes ritstjóri á Skarpi.