20. október. 2009 09:05
Byrjað er að undirbúa stækkun Alþýðuhússins í Borgarnesi, aðalskrifstofu Stéttarfélags Vesturlands. Í vikunni sem leið var byrjað að hreinsa klæðningu af útvegg hússins þar sem stækkunin mun koma og er stefnt að því að viðbygging verði fokheld fyrir 1. desember næstkomandi. Ekki eru meira en fjögur ár síðan húsið var tekið í notkun, en það var byggt af Verkalýðsfélagi Borganess sem síðan hefur verið sameinað verkalýðsfélögunum í Dalasýslu og sunnan Skarðsheiðar.
Að sögn Signýjar Jóhannesdóttur, formanns Stéttarfélags Vesturlands, verður húsið stækkað um rúmlega 50 fermetra en skortur var orðinn á auknu rými.
“Það er aukin húsnæðisþörf hjá okkur meðal annars vegna stækkunar félagsins og fleiri verkefna. Hjá okkur fer til dæmis atvinnuleysisskráning fram og verkefni í kringum endurhæfingarsjóð. Það er einungis ein skrifstofa í húsinu sem hægt er að loka og þeim verðum við að fjölga. Það má líka segja að það hafi ríkt ákveðin naumhyggja þegar húsið var byggt og menn voru aðhaldssamir, vildu ekki byggja of stórt,” segir Signý.
Um byggingu hússins var samið við verktaka í heimabyggð og reynt að skipta við sem flesta. “Við viljum ekki bjóða út svona verk miðað við þær aðstæður sem eru á vinnumarkaðnum í dag,” segir Signý.
Auk skrifstofunnar í Borgarnesi rekur félagið skrifstofu í Búðardal sem opin er annan hvern fimmtudag. Í síðustu viku var auk þess opnuð skrifstofa í nýja skrifstofuhóteli Hvalfjarðarsveitar á Hagamel. Þar er opið einu sinni í viku frá klukkan 8:30 til 12:30 á þriðjudögum.