20. október. 2009 05:10
Nú þegar þeir dagar fara í hönd sem á almanakinu eru kallaðir veturnætur er gaman að minnast þess að þetta voru einmitt dægrin sem spáfólk gerði sína spádóma upp á gamla mátann. Spáði þá gjarnan fyrir um vetrartíðina. Hér er einkum verið að tala um garnaspár, þegar görnin var þá tekin upp af frosinni jörð og á innihaldi hennar mátti greina þróun tíðarfarsins. Í þá daga var reyndar ennþá erfiðara að þreyja þorrann og góuna en nú á dögum. Þeir sem enn kynnu að búa yfir kunnáttu eins og við garnaspár, eru minntir á að nú er hárrétti tíminn.
Veturnætur eru síðustu nætur fyrir vetur. Sumarið hefst alltaf á fimmtudegi og endar því væntanlega á miðvikudegi. Þar sem fyrsta vetrardag ber upp á fyrsta laugardag eftir að sumri lýkur þá verða þarna tveir sólarhringar í einhvers konar tómarúmi tímans en þarna eru sem sagt veturnætur komnar. Vissuð þið þetta?