23. október. 2009 01:12
Á fundi strandríkja um stjórnun veiða úr kolmunnastofninum sem lauk í Lundúnum í gær, náðist samkomulag um að heildaraflamarkið verði 540.000 tonn. Ákvörðunin er samkvæmt ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins (ICES) og þá langtíma stjórnunaráætlun sem ICES vann fyrir strandríkin og samþykkt var haustið 2008. “Sú áætlun tryggir sjálfbæra nýtingu stofnsins til lengri tíma. Íslenskum skipum verður heimilt að veiða 87.625 tonn. Einnig var skrifað undir samning um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og er heildaraflamarkið 1.483.000 tonn árið 2010,” segir í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu. Þar segir einnig að niðurstaða strandríkjanna sé í fullu samræmi við vísindaráðgjöf ICES og þá langtíma stjórnunaráætlun sem sett hefur verið.
“Staða stofnsins er góð og stofninn hefur verið nýttur á sjálfbæran hátt undanfarin ár. Í ljósi þess að árgangar undanfarinna fjögurra ára hafa verið minni heldur en á tímabilinu 1998 til 2004 þar sem sterkir árgangar komu inn í stofninn lagði ICES til 9,7% niðurskurð milli ára og var því fylgt. Samkvæmt samkomulaginu verður íslenskum skipum heimilt að veiða 215.183 tonn,” segir að lokum.