Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. október. 2009 08:02

Róttækar tillögur um hagræðingu í fræðslumálum

Í síðustu viku var lögð fram í byggðaráði Borgarbyggðar skýrsla vinnuhóps sem starfað hefur síðan í sumar og hafði það hlutverk að leggja fram tillögur til sveitarstjórnar um hagræðingu í málaflokknum. Í skýrslunni leggur vinnuhópurinn til ýmsar tillögur, misjafnlega róttækar miðað við núverandi fyrirkomulag, um hagræðingu í rekstri leik- og grunnskóla, tónlistarskóla og tómstundaskóla í sveitarfélaginu. Fyrirhugað er að skýrsla hópsins verði nýtt sem grundvöllur fyrir ákvörðunartöku sveitarstjórnar um hagræðingu í fræðslumálum og því fór hópurinn þá leið að benda á sem flesta möguleika til að draga úr kostnaði við rekstur skóla í sveitarfélaginu. Verði farið eftir þeim tillögum hópsins sem ganga lengst verða grunnskólar lagðir niður í sveitarfélaginu og ýmiss þjónusta skert. Fræðslumál í Borgarbyggð hafa tekið til sín um 65% af skatttekjum sveitarfélagsins og því ljóst að í þeim málaflokki má ná fram mestum sparnaði í krónum talið. Sjálf skýrsla vinnuhópsins er HÉR. Eru íbúar hvattir til að kynna sér hana.

Að sögn Finnboga Rögnvaldssonar, formanns vinnuhópsins er gert ráð fyrir að niðurstöður skýrslunnar verði kynntar íbúum á fundum mjög fljótlega. Eftir er að taka ákvörðun um fundarstaði og tíma, en það verður kynnt hér strax og upplýsingar liggja frammi um það.

 

Misjafnlega róttækt um grunnskóla

Róttækustu tillögur hópsins snúa að rekstri grunnskóla í sveitarfélaginu sem nú eru allmargir miðað við fjölda íbúa; þ.e. Grunnskólinn í Borgarnesi, Grunnskóli Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og Hvanneyri, Varmalandsskóli auk þess sem Borgarbyggð tekur þátt í rekstri byggðasamlags um rekstur Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi. Vinnuhópurinn kýs að leggja fram tvær tillögur. Annars vegar að allar starfsstöðvar grunnskólanna verði reknar áfram en með hækkun hámarksfjölda í bekkjardeildum og öðrum hagræðingaraðgerðum. Hins vegar eru lagðar til fimm tillögur sem ganga misjafnlega langt í þá veru að ná fram sparnaði með breyttri skipan skólahverfa. Róttækasta tillagan snýst um að leggja niður tvær starfsstöðvar grunnskóla og hætt þátttöku í rekstri Laugargerðisskóla, þannig að eftir verði einungis Grunnskólinn í Borgarnesi og annar tveggja; Varmalandsskóli eða Grunnskóli Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum.

Rekstur grunnskóla í sveitarfélaginu kostar nú um 650 milljónir króna á ári. Vinnuhópurinn hefur reiknað út að spara megi frá 51 milljón og upp í 103 milljónir á ári í launalið eftir því hvaða tillaga verður valin í hagræðingu. Fjárhagsáætlun Borgarbyggar fyrir árið 2009 gerir hins vegar ráð fyrir 220 milljónum til reksturs þeirra þriggja starfsstöðva sem hugsanlega yrðu aflagðar samkvæmt róttækustu tillögu hópsins. Við frekari úrvinnslu tillagnanna segir vinnuhópurinn mikilvægt að áætla gróflega frekari sparnað sem af breytingunum hljótast.

 

Víðtækar tillögur um leikskóla

Vinnuhópurinn leggur ekki til fækkun leikskóla en bendir á ýmsar leiðir til sparnaðar og ganga nokkrar þeirra í þá átt að kostnaður heimila við leikskólavist barna hækkar. Meðal annars er lagt til að leikskólastjórar taki að sér deildarstjórn í einnar deildar skólum. Þá er sagt að þegar fjöldi barna í hverjum leikskóla fer niður fyrir 10 skuli endurskoða reksturinn. Starf sérkennslustjóra verði lagt niður. Lagt er til að fjöldi barna innan hverrar deildar verði ekki innan við 5-10 á hvern starfsmann eftir aldri barna. Lögð er til hækkun gjaldskrár í áföngum sem miði að því að kostnaðarþátttaka foreldra nái 25% af rekstri leikskóla. Lagt er til að leikskólum verði lokað klukkan 12 á hádegi á föstudögum, að fæðisgjöld hækki og að endurskoðaðar verði afsláttarreglur. Þessar tillögur og fleiri má lesa á bls. 7 í skýrslu vinnuhópsins.

 

Þjónusta tómstundaskóla skert

Varðandi rekstur tómstundaskóla eru einfaldlega lagðar til tvær leiðir. Annars vegar að rekstri hans verði hætt og börnum í heimanakstri verði veitt ákveðin lágmarksþjónusta. Hins vegar að rekstri tómstundaskóla verði haldið áfram í núverandi formi en með hækkaðri gjaldskrá, styttingu vistunartíma og fleiri sparnaðarráðum.

 

Allsstaðar leitað sparnaðar

Ýmsar breytingar hafa þegar verið gerðar á rekstri Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Í tillögum vinnuhópsins er ekki lögð til frekari skerðing á kennslumagni, en ýmiss annar sparnaður lagður til. Má þar nefna að deildarstjórastöður verði lagðar niður, gjaldskrá verði hækkuð, niðurgreiðsla kennslu eftir 20 ára aldur nemenda verði hætt nema þegar um framhaldsskólanemendur er að ræða, akstursgreiðslum verður hætt og lagt til að kennsla við skólann verði á dagvinnutíma.

Loks eru nefndar nokkrar leiðir sem spara megi í málaflokkum sem heyra undir fræðslusvið, svo sem skerðing styrkja til dagforeldra, námskostnaður starfsfólks og að hætt verði niðurgreiðslu námskostnaðar grunnskólanemenda í framhaldsskólum.

 

Í vinnuhópnum sátu Finnbogi Rögnvaldsson, Finnbogi Leifsson, Hrefna B. Jónsdóttir og Snorri Sigurðsson.  Þá störfuðu þær Ásthildur Magnúsdóttir fræðslustjóri og Linda B. Pálsdóttir fjármálastjóri með hópnum.  Auk þess kallaði hópurinn til sín ýmsa aðila til viðræðna og ráðgjafar.

 

 

 

 

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is