29. október. 2009 02:05
Rjúpnaveiðitímabilið hefst á morgun, föstudaginn 30. október og stendur til 6. desember. Í vetur verður heimilt að veiða í samtals 18 daga; á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Hefur tveimur helgum verið bætt við tímabilið frá því í fyrra en í staðinn hafa veiðihelgarnar verið styttar úr fjórum dögum í þrjá. Full ástæða er til að hvetja skotveiðimenn til að taka fullt mark á veðurspám og fara í einu og öllu eftir þeim leiðbeiningum sem eiga við veiðar í íslenskri náttúru að vetri. Þá skulu menn virða að skotveiði er víða stranglega bönnuð. Lögreglan í Borgarfirði og Dölum mun hafa eftirlit með því að rjúpnaveiðimenn fari að lögum og reglum. Eftirlitið verður bæði á landi og úr lofti. Veiðimenn mega því búast við að vera stöðvaðir í umdæmi LBD og að þurfa að framvísa veiðikorti og skotvopnaleyfi. Þá verður fylgst með því að byssur rúmi mest tvö skot í skotgeymi.