Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. október. 2009 03:02

Ofbýður mismunun á fjárveitingum til þjóðgarða

„Við getum hreinlega ekki skilið það hérna hvers vegna það sama gildir ekki um alla þjóðgarða landsins,” segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar. „Ég get ekki séð annað en Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull líði fyrir það að heyra undir Umhverfisstofnun. Fjárframlög til þjóðgarðsins eru skorin við nögl og til dæmis fáum við ekki krónu til framkvæmda í fjárlagafrumvarpi en reiknað hafði verið með 50 milljónum króna til þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi. Þessir peningar eru fyrsti hluti 200 milljóna króna sem áttu að koma í hlut sveitarfélagsins vegna þorskkvótaniðurskurðar og við sömdum um að yrðu settar til þjóðgarðsins á fjórum árum.”

 

 

 

Kristinn segir bæjarstjórn hafa sent erindi vegna þessa niðurskurðar til fjárlaganefndar í byrjun september og ekki fengið nein svör ennþá. „Þar óskum við eftir því að fjárlaganefnd Alþingis beiti sér fyrir því að Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull verði gerður að sjálfstæðri stofnun með sjálfstæða stjórn. Við bendum á að þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hafi á þessu ári fengið 29,15 milljónir í almennan rekstur og ekki krónu til framkvæmda. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hafi fengið 73,4 milljónir í almennan rekstur og 31 milljón króna til framkvæmda og Vatnajökulsþjóðgarður fékk 160,5 milljónir í almennan rekstur og 245,5 milljónir til framkvæmda. Þarna er hróplegt ósamræmi og við erum bara að fá hingað vestur brot af því sem hinir þjóðgarðarnir eru að fá. Ég skil vel að það þurfi að spara peninga í þessu árferði. Umhverfisstofnun hefur örugglega verið gert að spara og þá er einfaldast fyrir þá stofnun að skera niður einhverjar framkvæmdir vestur á Snæfellsnesi til að halda einhverju öðru.”

 

Eitt stórt núll til framkvæmda

Sama er uppi á teningum í fjárlagafrumvarpinu segir Kristinn. „Hinir þjóðgarðarnir fá samkvæmt því smávegis hækkun á almennan rekstur en til Þingvalla fara 74,4 milljónir í almennan rekstur og 31 milljón til framkvæmda sem er eins og í ár. Til Vatnajökulsþjóðgarðs fara 165,4 miljónir í almennan rekstur sem er fimm milljónum meira en í ár og 214,8 milljónir til framkvæmda, sem er 30 milljónum minna en í ár. Þjóðgarðinum Snæfellsjökli er hins vegar ætlað að fá sama í almennan rekstur eða 29,15 milljónir og eitt stórt núll til framkvæmda.”

Kristinn segir ljóst að stjórnun yrði til muna einfaldari í sjálfstæðri stofnun. „Eins og staðan er í dag kemur stjórnun fyrst til kasta Umhverfisráðuneytis, síðan Umhverfisstofnunar og svo kemur þjóðgarðsvörður. Annars á það kannski ekki að vera í verkahring sveitarstjórnar að skipta sér af þessum málum. En okkur ofbýður svo þessi mismunun að okkur finnst nóg komið,” segir Kristinn Jónasson.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is