29. október. 2009 11:03
Ungir og gamlir stilltu saman strengi sína á stórskemmtilegum tónleikum sem fram fóru í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi í gær. Þar voru komnir saman tveir sönghópar. Annars vegar elsti árgangur leikskólans Vallarsels en hins vegar Hljómur, kór eldri borgara. Kórarnir fluttu fyrst fjögur lög hvor í sínu lagi en í lokin sungu þeir saman. Stjórnendur voru Aðalheiður María Þráinsdóttir deildarstjóri á Vallarseli og Katrín Valdís Hjartardóttir stjórnandi Hljóms. Undirleikari var Sveinn Arnar Sæmundsson.
Rétt er að minna á að í kvöld verða tvennir tónleikar í Bíóhöllinni á Akranesi þar sem Ungir - gamlir koma saman. Þar munu núverandi nemendur Tónlistarskólans og grunnskólanna stíga á svið ásamt eldri nemendum. Sérstakur gestur tónleikanna verður Ingó Veðurguð.