02. desember. 2009 10:02
Frá því um miðjan október hefur brúarvinnuflokkur Guðmundar Sigurðssonar unnið við breikkun stokksins yfir Álftá á Mýrum. Að sögn Guðmundar brúarsmiðs verður stokkurinn breikkaður um sex metra beggja vegna vegarins. „Þetta er liður í því að auka öryggi vegfarenda þarna um. Vegkanturinn var mjög knappur og þessi breikkun er gerð til að hægt verði að koma fyrir vegriðum,“ segir Guðmundur en talsverð hæð er frá veginum og niður í ána. Hann segir að nú sé beðið eftir steypuveðri en væntanlega muni brúarvinnuflokkurinn ljúka sinni vinnu við brekkun stokksins um eða fyrir miðjan desember. Það sé hins vegar ekki ljóst hvenær farið verði í fyllingu og vegriðunum komið fyrir í framhaldi af því.