04. desember. 2009 04:28
Félagar í Mæðrastyrksnefnd Vesturlands voru nú síðdegis í óða önn að pakka matvælum og öðrum varningi til þeirra sem eru hjálpar þurfi fyrir jólin. Að sögn Anítu B Gunnarsdóttur formanns nefndarinnar hafa nú yfir 110 fjölskyldur óskað eftir aðstoð nefndarinnar og býst hún við að þeim muni fjölga. Fyrir síðustu jól var úthlutað um 130 sendingum. Aníta segir að vel hafi gengið að fjármagna matarkaupin. Bæði hafi fyrirtæki gefið matvæli og ýmsan varning og þá hafi félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar einnig styrkt nefndina með peningagjöfum. Aðal úthlutun Mæðrastyrksnefndar Vesturlands verður á morgun, laugardaginn 5. desember. Enn getur fólk þó hringt og óskað eftir aðstoð nefndarinnar og er þá best að hringja í farsíma Anítu, en hann er 868-3547.
Á meðfylgjandi mynd eru Jóhann Svansson, Ragnheiður Laufey Önnudóttir og Aníta Gunnarsdóttir frá Mæðrastyrksnefnd Vesturlands. Hjá þeim er lítill hluti þess matar sem nú bíður þeirra sem nefndin styrkir.