05. desember. 2009 09:19
Síðasti þáttur undanúrslita spurningakeppninnar Útsvars í Ríkissjónvarpinu var í kvöld. Þá áttust við lið Snæfellsbæjar og Reykjavíkur. Lið vestanmanna var skipað Ara Bjarnasyni, Guðrúnu Fríðu Pálsdóttur og Magnúsi Stefánssyni. Lið höfuðborgarinnar var skipað Jóni Yngva Jóhannssyni, Svanhildi Hólm Valsdóttur og Stefáni Eiríkssyni. Viðureignin fór 106:60 Reykjavík í vil. Snæfellsbær hefði þurft að fá 6 stigum meira til að komast í hóp fjögurra stigahæstu tapliða fyrstu umferðar og öðlast þar með áframhaldandi keppnisrétt. Næstkomandi laugardag mætir Borgarbyggð Álftanesi, en Borgfirðingar voru eins og kunnugt er langstigahæsta taplið fyrstu umferðar, hlutu 102 stig en töpuðu þó gegn Akureyringum. Borgarbyggð er eina lið Vesturlands sem kemst áfram úr fyrstu umferð.