09. desember. 2009 01:02
Aðalfundur Bæjarmálafélags Snæfellsbæjar var haldinn sl. mánudagskvöld. Þar var samankominn um 20 manna hópur úr félaginu. Að sögn Ragnhildar Sigurðardóttur á Álfavatni, formanns félagsins, var einróma ákveðið að bjóða fram J-listann við sveitarstjórnarkosningar að vori. Við kosningarnar vorið 2006 fékk J-listinn þrjá menn kjörna en Sjálfstæðisflokkurinn fjóra. Ragnhildur segir að Kristján Þórðarson bóndi á Ölkeldu og oddviti J-listans hafi ljáð máls á að leiða listann áfram. Boðað verði til framhaldsaðalfundar strax eftir áramótin og þá ákveðið hvernig staðið verði að uppstillingu á listann.