09. desember. 2009 03:02
Fulltrúar sextán lífeyrissjóða innan vébanda Landssamtaka lífeyrissjóða stofnuðu formlega í gær Framtakssjóð Íslands, nýtt fjárfestingarfélag sem ætlað er að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins. Stofnendur sjóðsins ráða yfir um 64% af heildareignum lífeyrissjóða á Íslandi og hafa þeir skuldbundið sig til að leggja nýja fjárfestingarsjóðnum til um 30 milljarða króna í hlutafé. Enn er opið fyrir skráningu hlutafjár í sjóðnum.
Á stofnfundinum var kjörin sjö manna stjórn Framtakssjóðs Íslands. Hana skipa:
Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst,
Auður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar,
Baldur Þór Vilhjálmsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins,
Guðfinna Bjarnadóttir, fyrrverandi alþingismaður,
Ragnar Önundarson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna,
Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík,
Vilborg Lofts, rekstrarstjóri heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.