10. desember. 2009 09:30
Slökkviðlið Borgarbyggðar var um klukkan 20 í kvöld kallað að þriggja hæða fjölbýlishúsi við Egilsgötu 19 í Borgarnesi. Þar var eldur í íbúð á jarðhæð og mikill hiti farinn að myndast. Kona með barn var komin út úr íbúðinni þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn. Konan mun hafa brennst á höndum við að fara út með pott sem hafði verið á eldavél. Öllum íbúum hússins var gert að yfirgefa það og var opnuð neyðarmóttaka á vegum RKÍ í grunnskólanum meðan slökkvistarf stóð yfir. Slökkvistarf gekk vel og var því lokið um tíu mínútum síðar og þá farið að reykræsta húsið. Að sögn slökkviliðsmanna var íbúðin mikið skemmd að innan. Þá komst reykur inn í nærliggjandi íbúðir, en samtals eru fimm íbúðir í húsinu.