18. desember. 2009 10:01
 |
Sólrún Silja átti verðlauna-söguna |
Í aðventublaði Skessuhorns í lok nóvember var kynnt samkeppni um gerð jólasögu meðal nemenda eldri bekkja grunnskólanna á Vesturlandi. Þátttaka í samkeppninni var með besta móti, en alls skiluðu sér í keppnina 68 sögur frá nemendum allflestra grunnskóla á Vesturlandi. Í fyrsta sæti varð jólasagan
Óskastund barnanna eftir Sólrúnu Silju Rúnarsdóttur í 8. bekk Lýsðuhólsskóla í Staðarsveit. Hún býr í Böðvarsholti á Snæfellsnesi. Sólrún Silja fær stafræna myndavél í verðlaun. Í öðru sæti varð sagan
Vinnukonan og álfamærin eftir Bjarka Þór Grönfeldt Gunnarsson, nemanda í 10. bekk Varmalandsskóla, en hann er frá Brekku í Norðurárdal. Bjarki fær 10 þúsund króna gjafabréf að launum. Í þriðja sæti varð sagan
Gummi og jólakúlan, eftir Sigurlaugu Rún Hjartardóttur, nemanda í Grundaskóla á Akranesi. Hún fær 5 þúsund króna gjafabréf í verðlaun. Verðlaunasögurnar í heild sinni eru í Jólablaði Skessuhorns sem kom út fyrr í vikunni.