17. desember. 2009 11:14
"Staðan akkúrat núna er sú að við bíðum símtals frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um ákveðið mál er snýr að greiðslum úr jöfnunarsjóði grunnskóla vegna hugmynda um hagræðingu í fræðslumálum okkar. Ég get því ekki svarað því á þessari stundu hvort ákvörðun um hagræðingu í grunnskólum verði tekin á sveitarstjórnarfundi klukkan 18 í kvöld eða hvort sveitarstjórnarmenn þurfi lengri tíma til að meta málið," sagði Páll S Brynjarsson sveitarstjóri í Borgarbyggð í samtali við Skessuhorn nú klukkan 11 í dag. Páll segir að hagræðngarkrafa í fræðslumálum fyrir næsta ár sé rúmlega 50 milljónir króna og segist hann engu geta svarað á þessari stundu um hvort því markmiði verði náð án fækkunar starfsstöðva. Hins vegar segir hann að hægt sé að ná fram sparnaði í leikskólum og á öðrum sviðum. "Sveitarstjórnarmenn hafa einfaldlega ekki ákveðið það enn hvort ráðast þurfi í stærri breytingar á grunnskólunum í sveitarfélaginu og það er ekki víst að það muni liggja fyrir á sveitarstjórnarfundi í kvöld þar sem fjárhagsáætlun kemur til fyrri umræðu," sagði Páll.