22. desember. 2009 12:03
„Boðuð fækkun í löggæsluliði yfir vetrartímann um 25% á þessu víðfeðma landssvæða minnkar öryggi íbúa svæðisins og lengir viðbragðstíma lögreglunnar verulega. Bæjarstjórnin telur að nú þegar sé allt of langt gengið í niðurskurði á löggæslu á svæðinu,“ segir bæjarstjórn Grundarfjarðar í ályktun sinni sem gerð var á fundi fyrir helgina. Þar lýsir bæjarstjórnin þungum áhyggjum af boðuðum niðurskurði hjá sýslumanni Snæfellinga.
Bæjarstjórn Grundarfjarðar ítrekar fyrri ályktanir og mótmælir því að niðurskurður á þjónustu hins opinbera skuli fyrst og fremst verða á landsbyggðinni. Hún skorar á dómsmálaráðherra og fjárveitingavaldið að endurskoða fjárveitingar til embættis sýslumanns Snæfellinga.
Bæjarstjórn mótmælir harðlega ákvörðun um lokun umboðsskrifstofu sýslumannsembættisins í Grundarfirði frá áramótum og telur að ákvörðunin sé ekki byggð á faglegum forsendum heldur sé um tilviljanakennda ákvörðun að ræða. „Dagleg opnun umboðsskrifstofunnar í Grundarfirði hefur mælst mjög vel fyrir og verið vel nýtt af íbúum í fjölbreyttum erindagjörðum. Lokun skrifstofunnar ýtir sparnaði embættisins yfir á almenna íbúa í Grundarfirði og eykur kostnað þeirra. Bæjarstjórnin skorar á sýslumann að endurskoða þessa ákvörðun með hliðsjón af þörfum og þjónustu við íbúa.“