28. desember. 2009 10:58
 |
Hirðingjar og fjölskylda Jósefs. Ljósm. SL. |
Hinn guðdómlegi gleðileikur - leikverk í bundnu máli um fæðingu Jesú Kristí, var fluttur í Borgarnesi í gærkvöldi, þriðja dag jóla. Þetta er í annað sinn sem verkið er flutt þennan dag, en það er samið af þeim Kjartani Ragnarssyni og Unni Halldórsdóttur og leikstýrt af Kjartani. Dagskráin hófst með bænastund í Borgarneskirkju en þaðan var gengið að Tónlistarskóla Borgarfjarðar þar sem fjórir söngmenn fluttu jólasálm af svölum hússins. Eftir sönginn var gengið að Menntaskóla Borgarfjarðar og helgileikurinn fluttur í hátíðarsalnum. Alls tóku þrír kórar þátt í flutningnum; Kammerkór Vesturlands, Freyjukórinn og Barnakór Borgarneskirkju. Þá tóku margir áhugaleikarar þátt í sýningunni en flestir þeirra eru þekktir fyrir sitthvað annað en leik í sínum daglegu störfum.
Má þar nefna vitringana þrjá sem leiknir voru af rektorunum Ágústi, Ágústi og Ársæli. Theodór yfirlögregluþjónn var sem fyrr í hlutverki Ágústínusar keisara og Gísli Einarsson lék hinn illa Heródes. Í sýningarlok sungu gestir og leikarar Heims um ból áður en gengið var út í frostkalt kvöldið.