30. desember. 2009 08:05
Miðvikudaginn 13. janúar næstkomandi verður haldinn borgarafundur um hugmyndir að Miðaldaböðum við Deildartunguhver. Fundurinn fer fram í félagsheimilinu Logalandi í Reykholtsdal og hefst klukkan 20.30. Fyrst munu aðstandendur hugmyndarinnar að Miðaldaböðum kynna hugmyndina, hvernig hún kom til, stöðu hennar í dag og síðan fyrstu drög að teikningum Miðaldabaðanna. Eftir stutt kaffihlé verða almennar umræður. Þingmönnum kjördæmisins verður boðið á fundinn en fundarstjóri verður Sveinbjörn Eyjólfsson. Að sögn Kjartans Ragnarssonar í Borgarnesi, sem unnið hefur að framgangi hugmyndarinnar, fékk verkefnið skömmu fyrir jól gott brautargengi en þá úthlutaði Tækiþróunarsjóður átta milljónum króna til þess.
“Með þessum veglega styrk má segja að þróunar- og undirbúningsvinna komist á fullan skrið,” segir Kjartan og bætir við að opinberi styrkur sem þessi hvetji einnig væntanlega fjárfesta og fjárfestingasjóði til að koma að málinu. “Við erum í samtölum við fleiri en einn og fleiri en tvo til að setja fjármagn í verkefnið þó ekkert sé enn í hendi. Hagfræðingar hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi eru búnir að vinna ítarlega kostnaðar- og rekstraráætlun fyrir Miðaldaböðin og allar tölur um rekstur í þeim eru mjög lofandi. Það hvetur okkur líka sú staðreynd að þau tvö fyrirtæki sem eru að reka náttúruböð hér á landi, Jarðböðin í Mývatnssveit og Bláa lónið á Reykjanesi, eru þau fyrirtæki sem ganga hvað best á Íslandi í dag í ferðaþjónustu. Því er þó ekki að neita að Miðaldaböðin eru afskaplega dýr í stofnkostnaði, en áætlað er að 750 milljónir króna muni kosta að koma upp fyrsta áfanga þess,” segir Kjartan. Hann bætir því við að eins og ástandið sé í þjóðfélaginu í dag þurfi að minnsta kosti helmingur stofnkostnaðar að koma frá þolinmóðum fjárfestum. “Þetta munum við kynna allt nánar á fundi með íbúum Borgarbyggðar og öðrum sem áhuga hafa á að kynna sér málið í Logalandi 13. janúar næstkomandi.”