30. desember. 2009 01:24
Menntamálaráðuneytið hefur úthlutað úr Sprotasjóði fyrir skólaárið 2009-2010. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga. Ráðuneytið ákvað að tillögu stjórnar sjóðsins að styrkja 44 verkefna að upphæð tæplega 44 milljónir króna, en samtals voru umsóknir 143. Áherslusvið sjóðsins voru að þessu sinni sveigjanleiki og fjölbreytni í námi og kennsluháttum og lestrarkennsla og læsi í víðum skilningi.
Fimm verkefni á Vesturlandi fengu styrki. Hæsti styrkinn fær Menntaskóli Borgarfjarðar, krónur 2,2 milljónir, vegna verkefnisins Borgarfjarðarbrúin. Grundaskóli á Akranesi fær einnar milljónar króna styrk vegna þróunarverkefnis í byrjendalæsi og sömu upphæð fær leikskólinn Krílakot í Snæfellsbæ til verkefnisins Tónar eiga töframál. Grunnskóli Snæfellsbæjar fær 700 þúsund króna styrk til verkefnisins Átthagafræði í skólum Snæfellsbæjar. Loks fær Brekkubæjarskóli á Akranesi 400 þúsund króna styrk vegna 6+1; Trait- kennsla við ritun.