31. desember. 2009 09:05
 |
Valgerður afhenti Önnu fyrstu húfurnar frá borgfirskum kvenfélagskonum. |
Í tilefni þess að á árinu 2010 eru 80 ár liðin frá því að konur í kvenfélögum landsins stofnuðu Kvenfélagasamband Íslands hafa kvenfélagskonur um land allt ákveðið að prjóna húfur handa öllum börnum sem fæðast á árinu 2010. Með því vilja kvenfélagakonur senda hlýja kveðju til nýrra þjóðfélagsþegna og foreldra þeirra auk þess sem þær vekja athygli á því mikla og hljóðláta starfi sem kvenfélagskonur vinna vítt og breitt um landið til heilla fyrir land og þjóð. Áætlað er að um 5.000 börn fæðist á árinu hér á landi á tíu fæðingadeildum sem eru starfandi en þær eru á Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Neskaupstað, Höfn, Selfossi, Vestmannaeyjum, Keflavík og Reykjavík auk þess sem alltaf er eitthvað um að börn fæðist í heimahúsum. Húfurnar eru prjónaðar úr Kambgarni frá Ístexi, sem styrkir verkefnið með kostun á prentun heillaóskakorts, sem fylgir hverri húfu en á því kemur fram nafn þeirrar konu sem prjónaði húfuna og hvaða kvenfélagi hún tilheyrir.
Samband borgfirskra kvenna hefur nú afhent fyrstu húfurnar til kvennadeildar Sjúkrahússins á Akranesi og afhenti Valgerður Björnsdóttir formaður sambandsins þær í gær. Anna Björnsdóttir deildarstjóri tók við húfunum og þakkaði fyrir þær en ljósmæður munu sjá um að afhenda foreldrum húfurnar. Alls voru 23 húfur afhentar í fyrstu og sagði Anna að miðað við fjölda fæðinga síðasta árið myndu þær duga í um einn mánuð. Fyrstu hlýlegu húfuna fengu afhenta þau Aldís Róbertsdóttir og Ísólfur Haraldsson á Akranesi á nýfædda dóttur sína um leið og þau héldu með hana út í ískalt skammdegið áleiðis heim. Húfuna prjónaði kvenfélagskonan Herdís Guðmundsdóttir í Borgarnesi.