30. desember. 2009 05:33
Ljóst er að ágreiningur er innan sveitarstjórnar Borgarbyggðar um afgreiðslu fjárhagsáætlunar næsta árs og um tillögur til sparnaðar í fræðslumálum. Ræða átti bæði þessi mál á fundi sveitarstjórnar sem átti að hefjast klukkan 16:30 í dag. Þegar leið að því að fundurinn átti að hefjast var ljóst að loft var þrungið spennu í Ráðhúsi sveitarfélagsins, fulltrúar funduðu á lokuðum fundum með sínum flokksfélögum og loks þegar klukkan var langt gengin í fimm lokaði sveitarstjórn sig af án sveitarstjóra og skrifstofustjóra sem annars sitja reglubundna fundi sveitarstjórnar. Eftir um tíu mínútna fund gekk Björn Bjarki Þorsteinsson forseti sveitarstjórnar út og tilkynnti að fundi sveitarstjórnar væri frestað um óákveðinn tíma. Bætti svo við aðspurður að hann yrði tæplega haldinn á morgun, gamlársdag. Tilkynningar er að vænta í kvöld frá sveitarstjórn.
Ákvörðun um niðurskurð til fræðslumála og hugsanlega lokun grunnskóla í sveitarfélaginu hefur legið í loftinu frá því í haust þegar kynnt var skýrsla vinnuhóps um nokkrar leiðir til sparnaðar. Þær tillögur voru kynntar á íbúafundum í nóvember. Frá því í sumar hefur svokallað þjóðstjórnarfyrirkomulag verið í sveitarstjórn og þykir nú ljóst að verulega reynir á það þar sem ágreiningur er innan sveitarstjórnar um hversu langt skuli ganga í lokun skóla og í öðrum niðurskurði til fræðslumála.