Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. janúar. 2010 06:30

Einróma andstaða við hugmyndir um lokun Kleppjárnsreykjaskóla

Frá íbúafundinum í dag.
Fjölmennur íbúafundur í uppsveitum Borgarfjarðar samþykkti í dag mjög ákveðna áskorun þar sem mótmælt er tillögu sem komið hefur fram í sveitarstjórn Borgarbyggðar að leggja grunnskólann á Kleppjárnsreykjum niður til að spara megi um 40 milljónir í rekstri sveitarfélagsins. Til stóð að leggja fram tillögu þess efnis á sveitarstjórnarfundi daginn fyrir gamlársdag en af því varð ekki en í staðinn slitnaði upp úr samstarfi flokkanna. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að halda innihaldi tillögunnar leyndri hefur efnislegt innihald hennar borist út. Þegar það fregnaðist var hópur fólks í uppsveitum Borgarfjarðar sem ákvað strax að bregðast við og boða til fundar þangað sem um 160 manns mættu í dag.  Slíka samstöðu hafa íbúar ekki sýnt í tvo áratugi að minnsta kosti í uppsveitum Borgarfjarðar. Á þriðja tug fundarmanna kvaddi sér hljóðs og varði áframhald skólahalds á Kleppjárnsreykjum. Var fundurinn málefnalegur, en honum stýrði Þorvaldur Jónsson bóndi í Brekkukoti.

Kleppjárnsreykjaskóli.
Þeir sömu og boðuðu til fundarins í Logalandi stofnuðu á gamlársdag síðu á Facebook undir heitinu  “Vinir Kleppjárnsreykjaskóla – við viljum hafa skólann okkar áfram.” Í kynningu á síðunni segir orðrétt: “Fulltrúar í sveitarstjórn Borgarbyggðar lögðu það til á fundi 30. des. sl. að Kleppjárnsreykjaskóla yrði lokað í sparnaðarskyni. Ekki á að breyta skólahaldi í öðrum skólum sveitarfélagsins. Sveitungar og aðrir velunnarar Kleppjárnsreykjaskóla! Stöndum saman um að mótmæla þessu. Verjum skólann okkar og byggðarlagið.” Í dag hafa 560 manns  skráð sig á síðuna og er bæði með henni og mikilli fundarsókn í dag ljóst að íbúar í uppsveitum Borgarfjarðar munu ekki una lokun grunnskólans sem starfræktur hefur á Kleppjárnsreykjum í meira en hálfa öld.

 

Þar sem Skessuhorn hefur ekki undir höndum tillöguna sem orsakaði slit sveitarstjórnar, er ekki hægt að greina nákvæmlega frá innihaldi hennar. Því var þó ekki mótmælt af hálfu þeirra sveitarstjórnarmanna sem mættu á íbúafundinn í Logalandi í dag að efnislega fjallaði hún um lokun Kleppjárnsreykjaskóla. Samkvæmt heimildum Skessuhorns vildu allir fulltrúar Framsóknarflokks í sveitarstjórn og tveir af þremur fulltrúum sjálfstæðismanna loka skólanum í sparnaðarskyni. Allir fulltrúar Borgarlistans voru því hins vegar andsnúnir. Af þeim sökum sprakk samstarf svokallaðrar þjóðstjórnar í Borgarbyggð 30. desember sl. eins og áður segir. Á þessari stundu er því eina mögulega meirihlutastjórn í sveitarfélaginu samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, en fyrir liggur að sá síðar nefndi mun ekki standa óklofinn að tillögu um lokun skólans.

 

 

Á fundinum í Logalandi í dag var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:

 

“Ágætu fulltrúar í sveitarstjórn!

Við skorum á ykkur að leita annarra sparnaðarleiða en að loka skólum.  Slík aðgerð er óafturkræf og hefur verulega neikvæð áhrif á byggðaþróun og samfélagið allt, svo sem menningar-, íþrótta-  og æskulýðsstarfsemi.  Það er ekki víst að allir sveitastjórnarmenn geri sér grein fyrir hve veigamiklu hlutverki skólarnir gegna í uppsveitum Borgarfjarðar. 

Í samþykkt sameiningarnefndar á sínum tíma og kosið var um í sameiningarkosningum Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar er tilgreint að ekki verði hreyft við starfsstöðvum grunnskólanna á svæðinu.  Við krefjumst þess að starfað verði eftir þeirri samþykkt. 

Það er von okkar að sveitarstjórn leggi sig fram við að kynna sér starfsemi allra skóla í dreifbýlinu, áður en teknar verða ákvarðanir  sem hafa áhrif líf fjölda íbúa og gætu leitt til þess að íbúum fækki verulega.  Mikilvægt er að hugsanlegar sparnaðaraðgerðir verði kynntar fyrir íbúum sveitarfélagsins áður en ákvörðun er tekin.  Nemendur eru fólk en ekki tölur á blaði.  Höfum þeirra velferð að leiðarljósi.

Við bjóðum fram aðstoð okkar við vinna með sveitastjórn að tillögum sem stuðla að áframhaldandi skólastarfi í öllum skólum sveitarfélagsins.”

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is