05. janúar. 2010 08:05
Rekstrarafkoma Spalar var neikvæð á síðasta rekstrarári annað árið í röð. Hallinn var 129 milljónir króna frá 1. október 2008 til 30. september 2009, en 220 milljónir króna á rekstrarárinu þar á undan. Verðbólguáhrif á lán félagsins skýrir hallann að mestu leyti, auk þess sem rekstrarliðir hækkuðu milli ára og veggjald rýrnaði að verðgildi, en það hefur lækkað um tugir prósenta að raungildi síðustu misserin, samkvæmt ársskýrslu Spalar. Þetta kom fram á aðalfundi Spalar sem haldinn var skömmu fyrir jól. Þar var einnig tilgreint að óhjákvæmilegt yrði að hækka veggjald í Hvalfjarðargöngum á næstunni. Hvenær það gerist og hve mikil hækkunin verður sé á valdi stjórnar Spalar, sem endurkjörin var á aðalfundinum.
Tekjur Spalar voru 920 milljónir króna á síðasta rekstrarári, 59 milljónum króna minni en árið þar áður. Rekstrarkostnaður var liðlega 493 milljónir króna. Langtímaskuldir voru 3,5 milljarðar króna í lok rekstrarárs, nánast óbreytt tala frá ári áður. Heildarskuldir voru 4,4 milljarðar króna, líka nánast óbreytt tala frá því í fyrra. Meðalumferðin um göngin var 5.400 bílar á sólarhring að jafnaði, sem er um 1,8% minna en á fyrra rekstrarári.
Spalarmenn gera ráð fyrir því að efnahagsástandið, einkum aukin skattheimta af almenningi og bensíni, leiði til enn frekari samdráttar í umferðinni á næstu mánuðum.