05. janúar. 2010 10:03
Nefnd um listamannsíbúðina í húsi Vatnasafnsins í Stykkishólmi hefur úthlutað rithöfundunum Oddnýju Eir Ævarsdóttur og Þórdísi Björnsdóttur íbúðinni í þrjá mánuði hvorum rithöfundi á þessu ári. Veru í íbúðinni fylgja laun til handa rithöfundunum meðan á dvölinni stendur frá bandarísku stofnuninni Annenberg.
Á nýliðnu ári dvaldi ljóðskáldið og þýðandinn Óskar Árni Óskarsson í íbúðinni í hálft ár en nefndin hefur íbúðina til ráðstöfunar í hálft ár hverju sinni. Þess á milli getur Stykkishólmsbær úthlutað íbúðinni en í þeim tilfellum fylgja ekki laun með heldur fyrst og fremst gott atlæti í ró og næði auk góðs útsýnis.