06. janúar. 2010 11:58
Golfsamband Íslands valdi þau Valdísi Þóru Jónsdóttur úr Leyni á Akranesi og Ólaf Björn Loftsson úr Nesklúbbnum kylfinga ársins. Þetta var gert áður en samtök íþróttafréttamanna kynntu val á íþróttamanni ársins á Grand Hóteli í Reykjavík í gærkveldi en þá var haldin uppskeruhátíð Íþróttasambands Íslands. Þar voru heiðraðir íþróttamenn sérsambandanna innan ÍSÍ.
Valdís Þóra vann tvö mót á síðasta keppnistímabili. Hún sigraði í fyrsta móti sumarsins í Leirunni ásamt því að ná Íslandsmeistaratitlinum í höggleik í Grafarholti. Valdís Þóra tók aðeins þátt í fjórum mótum síðasta sumar og var því með 50% sigurhlutfall í mótum hér heima. Valdís hefur átt fast sæti í landsliði Íslands í golfi og náði besta árangri einstakra kylfinga í liðinu á Evrópumótinu í Slóveníu í fyrra. Hún tók einnig þátt í móti á Evrópumótaröð kvenna síðasta haust og varð þar með þriðji íslenski kvenkylfingurinn til að ná þeim árangri. Valdís Þóra stundar nú nám í Bandaríkjunum og æfir og keppir jafnframt í golfi.
Ólafur Björn Loftsson varð Íslandsmeistari í höggleik eftir einn magnaðasta lokasprett í íslenskri golfsögu. Þá var Ólafur Björn í landsliði Íslands sem komst í b-riðil í Evrópumóti liða sem fram fór í Wales sl. sumar. Ólafur Björn æfir og keppir nú við Charlotte háskólann í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, þar sem hann er við nám.