07. janúar. 2010 07:45
Tvö af skipum HB Granda, Faxi RE og Ingunn AK, fóru til gulldepluveiða á laugardaginn en Lundey NS er í slipp í Reykjavík þar sem unnið er að hefðbundnu viðhaldi. Reiknað er með því að skipið geti farið til veiða á gulldeplu nk. föstudag. Gulldepluveiðin hefur verið treg og farið rólega af stað eftir áramótin að því er Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, segir á vefsíðu fyrirtækisins. Hann segir menn nú bíða spennta eftir niðurstöðum loðnuleitar á vegum Hafrannsóknastofnunar.
Vilhjálmur segir að sl. sunnudagur hafi farið í leit að veiðanlegri gulldeplu en sú leit hafi ekki borið árangur fyrr en á mánudag. Þá gátu skipin verið að veiðum á meðan birtu naut en aflinn var samt ekki mikill eða um 70 til 100 tonn hjá hvoru skipi. Í gær voru aflabrögðin heldur skárri eða um 100 til 150 tonn eftir daginn. Hvort skip er því komið með ríflega 200 tonna afla eftir tvo daga á veiðum. Veiðisvæðið er á svipuðum slóðum og fyrir áramót eða í nágrenni Grindavíkurdýpis.
Á myndinni sjást Faxi og Ingunn landa gulldeplu á Akranesi rétt fyrir jól.