10. janúar. 2010 04:39
Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins munu Íslendingar greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir innan við tvo mánuði. Alþingi samþykkti í liðinni viku frumvarp dómsmálaráðherra um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því er lagt til að svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en fyrsta laugardaginn í mars næstkomandi skuli almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort lögin um Icesave nr. 1/2010 eigi að halda gildi eða falla úr gildi. Dómsmálaráðherra er falið að höfðu samráði við landskjörstjórn að taka ákvörðun um dagsetningu atkvæðagreiðslunnar. Þrjár dagsetningar virðast koma til greina, þ.e. 20. febrúar, 27. febrúar eða 6. mars. Við ákvörðun um dagsetningu þarf m.a. að taka tillit til þess að tími til utankjörfundaratkvæðagreiðslu sé nægur.
Í frumvarpinu um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslur segir að eftir því sem við verði komið skuli tekið mið af því kosningakerfi sem fyrir er. Í atkvæðagreiðslunni munu öll atkvæði landsmanna gilda jafnt óháð búsetu. Kjördeildir verða þær sömu og í hefðbundnum kosningum og framkvæmd kosninganna um margt eins og í kosningum til forseta eða Alþingis.