12. janúar. 2010 07:05
Skipuð hefur verið nefnd hjá sjálfstæðismönnum og óháðum í Stykkishólmi sem á að leggja fram tillögur um fyrirkomulag forvals á framboðslista vegna bæjarstjórnarkosninga í vor. Gretar D. Pálsson oddviti listans og forseti bæjarstjórnar gefur áfram kost á sér til að leiða listann. Hann segist vonast til að tillögur nefndarinnar um fyrirkomulag forvalsins liggi fyrir í janúarlok. “Við getum ekki verið með prófkjör samkvæmt reglum Sjálfstæðisflokksins, þar sem þetta er blandaður listi sjálfstæðismanna og óháðra en svo hefur verið frá árinu 1974. Því þurfum við að móta góðar reglur um einhvers konar forval og hvernig unnið verður úr því. Þar þarf að taka tillit til margra hluta, meðal annars kynjaskiptingar,” segir Gretar.
Sjálfstæðismenn og óháðir hafa hreinan meirihluta í bæjarstjórn Stykkishólms, eru með fjóra af sjö bæjarfulltrúum. Auk Gretars ætlar Ólafur Guðmundsson bæjarfulltrúi að gefa kost á sér áfram en bæjarfulltrúarnir Elísabet L. Björgvinsdóttir, sem var í öðru sæti síðast, og Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri, sem var í fjórða sæti, ætla ekki að gefa kost á sér áfram. Gretar segir Erlu þó gefa kost á sér í bæjarstjórastólinn áfram. “Henni finnst eðlilegra að hleypa fleirum að stjórn bæjarins og gefur því ekki kost á sér á listann þótt hún sé tilbúin að vera bæjarstjóri áfram,” segir Gretar. Aðrir sem voru á lista sjálfstæðismanna og óháðra fyrir síðustu kosningar og gefa kost á sér áfram eru Eydís Eyþórsdóttir, Guðfinna Arnórsdóttir, Hjörleifur K. Hjörleifsson og Símon Sturluson.