11. janúar. 2010 01:03
Bæði Vesturlandsliðin töpuðu sínum leikjum í fyrstu umferð 1. deildarinnar í körfubolta á árinu, sem fram fóru á föstudagskvöldið. Skagamenn voru í hörkubaráttu í Þorlákshöfn þar sem einungis skildu fimm stig í lokin, 97:92 fyrir Þór. Toppslagur Skallagríms og Hauka í Borgarnesi varð ekki eins jafn og vonast hafði verið til. Haukar sigruðu Skallagrímsmenn með 40 stiga mun.
Eins og fyrr í vetur reyndist þriðji leikhluti Skagamönnum erfiður í leiknum í Þorlákshöfn. Slæmur leikkafli þeirra þá gerði út um leikinn, en ÍA skoraði meira en Þór í hinum þremur leikhlutunum. Hjá Skagamönnum var Dagur Þórisson stigahæstur með 22 stig og fimm fráköst. Hörður Nikulásson átti einnig fínan leik, setti niður 20 stig og tók fimm fráköst. Trausti Freyr Jónsson var sterkur að vanda með 14 stig, sex stoðsendingar og jafnmörg fráköst. Áskell Jónsson var drjúgur með 16 stig og fjögur fráköst. Halldór Gunnar Jónsson gerði 10 stig öll í seinni hálfleik, tók fjögur fráköst og átti þrjár stoðsendingar.
Næstkomandi föstudag eiga Skagamenn heimaleik við Ármann í íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum klukkan 19:15.
Skallagrímur steinlá á móti Haukunum í Fjósinu í Borgarnesi á föstudagskvöldið. Lokatölur voru 65:105 Haukum í vil eftir að staðan í hálfleik var 30:45. Silver Laku var stigahæstur Skallagríms með 24 stig, Konrad Tota kom næstur með 16 stig, Hafþór Ingi Gunnarsson skoraði 16 og Trausti Eiríksson reif niður 10 fráköst auk þess að skora tvö stig. Landon Quick, sem einmitt lék með Skallagrím síðastliðinn vetur, gerði 24 stig fyrir Hauka í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Næsti leikur Skallagríms í 1. deildinni verður í Þorlákshöfn næstkomandi föstudagskvöld gegn Þór.